Erlent

Sara Palin segir af sér

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Sarah Palin, fyrrum varaforseta-frambjóðandi repúblikana, hefur sagt af sér sem fylkisstjóri Alaska. Afsögnin kemur eins og blaut tuska í andlitið á samflokksmönnum hennar vestra en sextán mánuðir eru eftir af kjörtímabili hennar.

Sarah Palin gaf út í kjölfar afsagnar sinnar að hún hygðist ekki bjóða sig fram í embættið á ný.

Einu skýringarnar sem hún gaf voru að henni fyndist tilgangslaust að hanga í embætti fyrst hún hefði ákveðið að bjóða sig ekki fram að kjörtímabilinu loknu. Margir repúblikanar höfðu spáð að Palin myndi bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2012.

Þá hafa samflokksmenn hennar sagt að afsögnin geri út um pólitískan feril hennar og benda á að ef þú ráðir ekki við að vera fylkisstjóri þá séu möguleikar á að verða forseti enn minni.

Aðrir telja að útreiðin sem hún fékk í kosningabaráttunni í fyrra sé ástæða þess að hún segi nú skilið við stjórnmálin, jafnvel fyrir fullt og allt. Palin lætur af störfum 25. júlí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×