Erlent

Kanadamenn æfir vegna selveiðibanns ESB

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Þessi selur býr í Húsdýragarðinum og þarf því ekki að óttast veiðar.
Þessi selur býr í Húsdýragarðinum og þarf því ekki að óttast veiðar. Mynd/EÓL
Kanadamenn munu gera athugasemdir við selveiðibann Evrópusambandsins frammi fyrir Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO að því er haft er eftir milliríkjaviðskiptaráðherra landsins.

Utanríkisráðherrar sambandsríkja ESB samþykktu nýlega bann við selveiðum og innflutningi selafurða innan sambandsins.

Aðeins selir sem veiddir eru samkvæmt fornum hefðum innfæddra þjóðflokka í Grænlandi og Kanada eru undanskildir banninu.

Yfirvöld í Kanada segja bannið ekki byggja á vísindalegum grunni líkt og vera ber þegar viðskiptatálmar eru annarsvegar. Bannið var samþykkt í kjölfar þrýstings dýraverndunarsinna sem sögðu veiðarnar ómannúðlegar.

Á hverju ári drepa Kanadamenn um 300 þúsund dýr, en þeir eru mesta selveiðiþjóð heims.

Dýraverndunarsamtök hafa fagnað veiðibanninu, en Stockwell Day, milliríkjaviðskiptaráðherra Kanada segir það ganga í berhögg við leiðbeiningar WTO.

Fulltrúar Evrópusambandsins telja að bannið komi í veg fyrir viðskipti upp á um 4,2 milljónir evra, eða um 750 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×