Erlent

Tugir barna hafa látið lífið á Gaza

Harðir bardagar hafa geysað á Gazaströndinni síðasta sólarhring og er manntjón mikið. Tugir barna hafa látið lífið frá því átökin hófust fyrir níu dögum. Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til nauðstaddra og fer ástandið sífellt versnandi.

Ísraelsher réðist yfir landamæri Gaza á fjórum stöðum í gærkvöldi eftir miklar loft- og stórskotaliðsárásir. Innrásin beinist fyrst og fremst að norðurhluta Gaza þar sem Hamasliðar hafa komið fyrir eldflaugaskotpöllum.

Hörðustu átökin hafa átt sér stað við bæina Jebalía og Beit Lahía en meginstyrkur Ísraelshers hefur beinst að Gazaborg sem nú er umkringd. Óljósar fréttir hafa borist af mannfalli. Ísraelsmenn segjast hafa fellt að minnsta kosti 32 hamasliða en einn hermaður hefur látið lífið. Þetta hafa talsmenn Hamasliðar ekki viljað staðfesta.

Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til nauðstaddra og fer ástandið sífellt versnandi. Fjölskyldur sitja innilokaðar í húsum sínum á meðan bardagar geysa útifyrir. Að minnsta kostir þrjátíu almennir borgarar hafa látið lífið og mun fleiri hafa særst í átökunum.

Fjölmörg ríki hafa fordæmt innrás Ísraelsmanna. Þar á meðal Norðmenn og Svíar. Í yfirlýsingu sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi frá sér í dag er innrás Ísraelshers á Gazaströndina fordæmd. Þar segir að innrásin geti aldrei annað en beinst að saklausum og varnarlausum íbúum sem hafa skipulega verið sviptir aðgangi að nauðþurftum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×