Innlent

Fjöldi mótmælafunda í dag

Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu verður víða mótmælt í dag. Borgarafundur verður í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði klukkan 14, en þar vonast menn til að heilbrigðisráðherra verði meðal gesta. Klukkan 15 verður mótmælaganga á Akureyri, frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorginu. Þar er hreppaflutningum á gamla fólkinu mótmælt, sem og lokun geðdeilda, uppsögnum ljósmæðra og skerðingu á þjónustu fjórðungssjúkrahússins.

Og það verða fleiri mótmælafundir í dag. Fjórtándi fundur Radda fólksins á Austurvelli í röð verður klukkan 15 undir kröfunum um að ríkisstjórnin og stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins fari frá, sem og að gengið verði til kosninga svo fljótt sem auðið er. Klukkan 16 verður svo félagið Ísland-Palestína með fund um ástandið á Gazasvæðinu í Iðnó, en að loknum þeim fundi verður kertafleyting á Tjörninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×