Lífið

Hellisbúi í lukkunærbuxum

Jóhannes treystir á að gæfa nærbuxnanna úr Fló á skinni virki í Hellisbúanum.Fréttablaðið/gva
Jóhannes treystir á að gæfa nærbuxnanna úr Fló á skinni virki í Hellisbúanum.Fréttablaðið/gva

„Ég er með lukkunærbuxur,“ viðurkennir Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari. „Það byrjaði á Akureyri, þegar ég var að leika í Fló á skinni þar, en þá fékk ég svona Joe Boxer-nærbuxur með hjörtum á. Ég þurfti að vera í þeim í þeirri sýningu, því þær sáust, og var alltaf í þeim. Fló á skinni endaði í 144 sýningum. Það gekk vel, þannig að ég ákvað bara að slá til og vera í þeim líka í Hellisbúanum.“

Nærbuxurnar eru þó þvegnar á milli sýninga. „Þetta getur verið mikil vinna. Ég þarf að sirka það þannig út að þær fari í taukörfuna og verði tilbúnar á sýningardegi. Það er heilmikil athöfn í kringum þetta. Ég er náttúrlega bara rétt nýbyrjaður að forsýna Hellisbúann, þannig að ég á eftir að athuga hvort það gangi ekki að vera alltaf í þeim, en það er stefnan. Ég ætla að sjá hvort ég get ekki gert hefð úr þessu.“

Lukkufatnaður tíðkast í fótboltanum og öðru sporti. „Maður hefur heyrt að íþróttamenn séu með eitthvað svona. Mér finnst ég alveg jafn töff og hver íþróttamaður. Maður verður að hafa eitthvað svona.“

Jóhannes er ekki lengur á samningi við Borgarleikhúsið, en hann var þar seinasta vetur. „Ég var á árssamningi en er núna að fara í Hellisbúann og verð í Þjóðleikhúsinu líka, í Gerplu hjá Baltasar. Hver veit nema maður snúi svo aftur í Borgarleikhúsið. Leikarar eru oft að flakka svona á milli húsanna.“

Hellisbúinn er frumsýndur á fimmtudaginn. Finnur Jóhannes fyrir spennu?

„Já, það er ekki laust við það. Ég hef nokkuð góða tilfinningu fyrir þessu, við höfum verið með forsýningar fyrir fullum sal og það hefur gengið æðislega, þannig að ég hef enga ástæðu til að ætla annað, svo lengi sem ég næ að tolla í nærbuxunum.“-kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.