Erlent

Ögra enn með eldflaugaskotum

Óli Tynes skrifar

Rússar segjast vera ráðvilltir yfir fréttum af því að Norður-Kóreumenn hafi skotið á loft tveimur skammdrægum eldflaugum.

Tass fréttastofan hefur eftir embættismanni í rússneska utanríkisráðuneytinu að þetta sé ekki besti tíminn til að vera að skjóta eldflaugum, þegar lögð sé megináhersla á að koma aftur af stað sex hliða viðræðum við Norður-Kóreu.

Auk Kóreuríkjanna tveggja og Rússa munu Bandaríkin, Kína og Japan taka þátt í þessum viðræðum.

Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að Bandaríkjamenn myndu halda áfram að reyna að halda kjarnorkuvopnum frá Kóreuskaganum.

Hún sagði að ríkin fimm sem væru að reyna að semja við Norður-Kóreu reyndu að leiða þeim fyrir sjónir að alþjóðasamfélagið muni ekki samþykkja að þeir komi sér upp kjarnoirkuvopnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×