Innlent

Sparnaður fólst í lögfræðistörfum stjórnarformannsins

Mynd/Arnþór Birkisson

Talsverður sparnaður fólst í því að Katla Þorsteinsdottir, stjórnarformaður Kosmos, tæki að sér lögfræðistörf fyrir Alþjóðahúsið. Á árunum 2006 til 2007 fengu fjórir stjórnarmenn samtals 350 þúsund krónur hver fyrir stjórnarsetu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn fyrirtækisins.

Alþjóðahúsið stendur ekki undir nafni og starfsemin þar er ekki svipur hjá sjón. Þetta er skoðun bæði núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem gagnrýna að eigendum hafi verið greiddur arður og að stjórnarformaður þiggi milljónir króna í laun fyrir lögfræðistörf þrátt fyrir að vera í fullri vinnu annars staðar. Þessi gagnrýni kemur fram í bréfi sem hópur núverandi og fyrrverandi starfsmanna hússins sendi borgarstjóra í síðasta mánuði og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld.

„Stjórnarformaður Kosmos tók að sér lögfræðistörf fyrir Alþjóðahús, enda fólst í því talsverður sparnaður. Við það er ekkert athugavert, ekki frekar en að annar stjórnarmaður Kosmos til langs tíma, Tatjana Latinovic, hefur þegið eðlilegar greiðslur fyrir túlkaþjónustu," segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að tillaga starfsmanna um að ráða viðbótarlögfræðing hefði kostað mun meira en leiðin sem farin var. Katla hafi mikla reynslu á sviði ráðgjafar til innflytjenda. Um það deili enginn. Eftir 20 milljón króna taprekstur á árinu 2008 hafi stjórnin talið nauðsynlegt að grípa til sparnaðaraðgerða og því hafi þessi leið verið valin.

_________

Athugasemd: Hákon Gunnarsson, stjórnarmaður Kosmos, neitaði viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í dag. Fréttastofan stendur við fréttina.


Tengdar fréttir

Bruðl í Alþjóðahúsinu

Alþjóðahús stendur ekki undir nafni og starfsemin þar er ekki svipur hjá sjón. Þetta er skoðun bæði núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem gagnrýna að eigendum hafi verið greiddur arður og að stjórnarformaður þiggi milljónir króna í laun fyrir lögfræðistörf þrátt fyrir að vera í fullri vinnu annars staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×