Innlent

Davíð forðaði sér á stökki

Mótmælandi hlýðir á Bubba eftir að hafa elt Davíð inn í Seðlabankann.
Mótmælandi hlýðir á Bubba eftir að hafa elt Davíð inn í Seðlabankann.

Mótmælendur eltu Davíð Oddsson, Seðlabankastjóra, fyrir utan bankann í morgun en Davíð komst undan þeim með naumindum. Lögreglan stöðvaði mótmælendur þegar þeir ætluðu að fara inn um innganginn á eftir Davíð.

„Við sáum hann gægjast fyrir horn en hann var mættur snemma í morgun, hann forðaði sér á stökki þegar hann sá okkur" segir Hörður Torfason, sem tók sprettinn ásamt öðrum mótmælendum um leið og þeir sáu seðlabankastjórann. Að sögn Harðar stóð Davíð við vegg nálægt innganginum með kaffikrús í hendi og fylgdist með pottaglamri mótmælanda. Þegar Hörður tók eftir honum tók hann á rás á eftir Davíð ásamt öðrum mótmælendum. Davíð forðaði sér en á milli hans og útidyrahurðarinnar voru um fjórir metrar að sögn Harðar. Svo virðist sem Davíð hafi snúið á mótmælendur, ólíkt gærdeginum, því hann var mættur snemma til vinnu.

„Lögreglan stöðvaði okkur við innganginn," segir Hörður sem horfði á eftir Davíð hverfa inn í bankann. Aðspurður segir hann Davíð ekki hafa litið um öxl þegar inn var komið.

Það var góð stemmning hjá mótmælendum þegar haft var samband við Hörð. Veðrið var kalt, „en það er alveg ofboðslega fallegt veður," segir Hörður sem lætur frostið ekki bíta á sig. Sjálfur vaktaði hann bílainnkeyrslu bankans en hinu megin við húsið spilaði Bubbi Morthens fyrir mótmælendur.

Að sögn Harðar var ekki mikill viðbúnað lögreglu fyrir utan bankann, allavega minni en í gær, að hans mati. Sjálfur taldi Hörður að um hundrað mótmælendur stæðu vaktina fyrir utan Seðlabankann. Hann gerði ráð fyrir því að mótmælin stæðu til hádegis, í það minnsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×