Innlent

Deilt um prjóna og Facebook á bæjarstjórnarfundi

Tveir bæjarfulltrúar í Hafnarfirði deildu um prjóna og samskiptavefinn Facebook á fundi bæjarstjórnar í gær. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sagði áhugaleysi bæjarfulltrúa meirihlutans með ólíkindum. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar svaraði um hæl og sagðist vera ofvirk og eiga auðveldara með að halda athygli þegar hún prjónar. Ekkert af þessu var þó bókað í fundargerð því deilurnar áttu sér stað netinu. Nánar til tekið á Facebook.

Bæjarstjórnarfundurinn hófst klukkan tvö eftir hádegi og stóð í þrjár og hálfa klukkustund. Á miðjum fundi skrifaði María Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, á heimasvæði sitt á Facebook að hún teldi að fjölmiðlar ættu að mæta á fundinn til að ná mynd af þremur bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar að prjóna. Áhugaleysi þeirra væri með ólíkindum.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, svaraði Maríu Kristínu fullum hálsi. „María, við prjónum til að halda fókus og athygli, ættir að prófa það í staði þess að vera að hanga á Facebook á fundum."

María Kristínu gaf lítið fyrir þau orð og sagði lítið fara fyrir virkni Margrétar og félaga hennar í Samfylkingunni á fundum bæjarstjórnar. „Ég veit svei mér þá ekki hverju þessi fókus og öll athyglin skilar Margrét, amk fer ekki mikið fyrir virkni ykkar hér. Tölvurnar notum við aðallega og mest til að ná í gögn til að geta tekið þátt í fundinum."

Í framhaldinu sagðist Margrét Gauja ekki skilja af hverju fólk væri að agnúast út í prjónaskap á fundum sem þessu. „Það er mælt með þessu í námsráðgjöf t.d ef fólk þarf að sitja á löngum fyrirlestrum og slíkt. Virkar vel fyrir mig, má ég þá ekki nota þetta? Verandi ofvirk ;)"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×