Lífið

Á leið í Evróputúr

sólstafir Rokkararnir í Sólstöfum eru á leiðinni í eins mánaðar tónleikaferð um Evrópu.
sólstafir Rokkararnir í Sólstöfum eru á leiðinni í eins mánaðar tónleikaferð um Evrópu.

Rokksveitin Sólstafir er á leiðinni í eins mánaðar tónleikaferð um Evrópu. Ferðin hefst í Finnlandi 16. september. Til að hita upp fyrir ferðina spilar hún með hinu goðsagnarkennda bandi XIII á Sódómu Reykjavík næsta laugardag.

Þetta verða síðustu tónleikar Sólstafa hérlendis á árinu og jafnframt þeir fyrstu hjá XIII í nokkur ár. „Það verður gaman að hafa kóngana í XIII með. Við ólumst upp við að horfa á þá á Rósenberg í gamla daga,“ segir söngvarinn og gítarleikarinn Aðalbjörn Tryggvason.

Hann segir Evróputúrinn þann stærsta sem sveitin hafi farið í, enda verður spilað á 25 tónleikum á álíka mörgum dögum. „Það eru ekki mörg íslensk rokkbönd sem hafa farið á svona langan túr og við höfum ekki gert neitt í líkingu við þetta. Maður veit ekki hvernig maður á að undirbúa sig.“ Fyrr í sumar fór sveitin í tveggja vikna ferðalag þar sem hún spilaði á hátíðum í Þýskalandi og Finnlandi. „Það voru tólf þúsund manns í Þýskalandi sem sáu okkur og í Finnlandi var sána og heitur pottur í herberginu baksviðs. Geri aðrir betur,“ segir Aðalbjörn.

Sólstafir hefur gefið út fjórar plötur, þá síðustu í febrúar síðastliðnum. Samningur sveitarinnar við finnska útgáfufyrirtækið Spikefarm Records er að renna út en verður líklega endurnýjaður á næstunni. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.