Erlent

Mannskæð bílsprengja á sumardvalareyjunni Mallorca

Bíllinn sem sprakk er í tætlum.
Bíllinn sem sprakk er í tætlum. Mynd/AP

Tveir lögreglumenn létu lífið þegar bíll sprakk á spænsku sumarleyfiseyjunni Mallorca í dag. Í kjölfar sprengjunnar lokuðu yfirvöld á Mallorca öllum samgönguleiðum til og frá eyjunni.

Sprengjan sprakk fyrir utan aðsetur spænsku herlögreglunnar í Palmanova um tvöleytið að staðartíma. Sprengingin hefur þegar verið tengd aðskilnaðarhreyfingu Baska, ETA, en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á tilræðinu. För flugvéla og skipa frá eyjunni hefur verið stöðvuð á meðan reynt er að finna tilræðismennina.

Önnur sprengja fannst í bíl nálægt þeirri sem sprakk, og var henni eytt af lögregluyfirvöldum.

Fyrir tveimur dögum sprakk sprengja í bænum Burgos á Spáni. Yfirvöld sökuðu ETA um að bera ábyrgð á tilræðinu sem var líka við lögreglustöð. Þá særðust sextíu manns. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu eru um þrjátíu Íslendingar á Mallorka núna. Enginn þeirra mun hafa verið nærri staðnum þar sem sprengjan sprakk.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×