Innlent

Meirihluti þingmanna hafa tveggja ára eða minni reynslu af þingstörfum

42 af 63 þingmönnum, eða tveir þriðju þeirra, hafa setið í tvö ár eða skemur á Alþingi. Aðeins 14 þingmenn hafa setið í áratug eða lengur.

Mikil endurnýjun varð á Alþingi í kosningunum um helgina þegar 27 nýir þingmenn náðu kjöri. Talsverð breyting varð einnig á þingmannahópnum í kosningunum fyrir tveimur árum en þá tóku 24 nýir þingmenn til starfa eftir kosningar. Þingmannahópurinn hefur því breyst mikið á aðeins tveimur árum.

Aðeins 14 af 63 þingmönnum hafa setið í áratug eða lengur á þingi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er reynslumest. Hún tók sæti á þingi árið 1978 og hefur setið þar síðan eða í rúma þrjá áratugi. Þeir sem koma þar á eftir eru Steingrímur J. Sigfússon og Árni Johnsen sem tóku fyrst sæti á Alþingi 1983, seta Árna hefur þó verið með hléum.

Sjálfstæðismaðurinn Einar K. Guðfinnsson var fyrst kosinn á þing árið 1991 og það sama á við um Össur Skarphéðinsson. Siv Friðleifsdóttir hefur mesta þingreynslu framsóknarmanna en hún hefur setið þar frá árinu 1995 líkt og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Pétur H. Blöndal og Ögmundur Jónasson. Þá hafa þingmennirnir Jón Bjarnason, Kristján L. Möller, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman tíu ára þingreynslu. Þau komu öll ný inn á þing árið 1999.

42 þingmenn hafa hins vegar aðeins tveggja ára reynslu eða minni af þingstörfum. 14 komu nýir inn árið 2007 einn árið 2008 og 27 nýir þingmenn taka sæti á þingi þegar það kemur aftur saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×