Lífið

Reykir rafeinda-rettur

Rafeinda-rettan Batteríið er hlaðið í tölvunni og nikótínhylkin má panta sér.
Rafeinda-rettan Batteríið er hlaðið í tölvunni og nikótínhylkin má panta sér.

Þegar iðjuþjálfinn Sigurður Hólm Gunnarsson sest inn á kaffihús, dregur upp rettu og byrjar að reykja, verður eðlilega uppi fótur og fit. Hann er þó í fullum rétti enda ekki að reykja „venjulega sígarettu“ heldur fyrirbæri sem hann pantaði á netinu og heitir e-cigarette, rafeinda-retta. Þessar gervirettur líta mjög „eðlilega“ út og það rýkur meira að segja úr þeim.

„Fyrst þegar ég var að prófa þetta komu stundum fílefldir dyraverðir aðvífandi. Þeir urðu náttúrlega furðulostnir þegar ég útskýrði sígarettuna fyrir þeim og vissu ekkert hvað þeir áttu að gera,“ segir Sigurður.

„Ég viðurkenni að ég er enginn stórreykingamaður og byrjaði seint að reykja, en þegar ég sá þetta á vafri mínu um netið pantaði ég nokkrar tegundir. Ég fæ mér af og til „venjulega“ sígarettu þegar mig langar til, en rafeinda-rettan hefur þó dregið stórlega úr því. Ég get verið sígarettulaus vikum saman,“ segir hann.

Rafeinda-rettan skiptist í þrjá hluta; batterí, nikótínhylki og hitara. Ýmsar tegundir hylkja má kaupa með ýmsum bragðtegundum.

„Í hylkinu er auk nikótínsins sama efni og er í reykvélum á skemmtistöðum og býr til reyk,“ segir Sigurður.

„Þessar sígarettur slá algjörlega við öllum nikótínlyfjum sem boðið er upp á og eru auk þess mörgum sinnum ódýrari. Þær líkja þó mest eftir fílingnum við það að reykja og áhrifin eru sambærileg.“

E-sígarettan er fáanleg í vefverslunum um allan heim og í mörgum tóbaksbúðum. Ekki er þó hlaupið að því að fá hana hér.

„Nikótín er skilgreint sem lyf og því má ekki flytja þetta inn nema vera með lyfsöluleyfi. Ég hef sjálfur reynt að flytja þessar sígarettur inn en gefist upp á að reyna það því reglurnar eru svo stífar og flóknar,“ segir Sigurður.

- drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.