Erlent

Óttast vansköpuð börn vegna lyfjagjafar

Frá London.
Frá London. MYND/AP
Tíu stúlkur sem fengu mikið af róandi lyfjum í athvarfi bresku kirkjunnar á sjöunda og áttunda áratugnum hafa fætt vansköpuð börn. Óttast er að eins fari um hundruð annarra stúlkna.

Hegðan stúlknanna sem þá voru á táningsaldri var stjórnað með lyfjagjöf. Breska sjónvarpsstöðin BBC hefur skoðað mál tíu stúlkna sem voru í athvarfi kirkjunnar, sem allar hafa fætt vansköpuð börn.

Ein þeirra var Teresa Cooper. Ferilskrá hennar sýnir að henni voru gefin lyf tólfhundruð fjörutíu og átta sinnum á 32 mánaða tímabili. Meðal annars fékk hún þrjár tegundir af róandi lyfjum, lyf við aukaverkunum og þunglyndislyf. Teresa fékk meðal annars tífaldan þann skammt af Valium sem ráðlagður er í dag.

Teresa yfirgaf athvarfið árið 1984 þegar hún var sextán ára gömul. Hún hefur síðan eignast þrjú börn sem öll eru vansköpuð.

Elsti sonur hennar er með galla í öndunarvegi. Annar sonur fæddist blindur og á við námsörðugleika að stríða og dóttir hennar er holgóma og með stuttan neðrikjálka.

BBC segir að óttast sé  að hundruð annarra stúlkna sem bjuggu í athvörfum víðsvegar um landið lendi í svipuðum hremmingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×