Lífið

Kokkar mótmæla stýrivöxtum með skeggvexti

Úlfar og Tómas þykja ansi skeggjaðir en vöxturinn heldur áfram þar til stýrivextir Seðlabankans verða komnir niður fyrir tíu prósent.
Úlfar og Tómas þykja ansi skeggjaðir en vöxturinn heldur áfram þar til stýrivextir Seðlabankans verða komnir niður fyrir tíu prósent.

Tveir af þekktustu matreiðslumönnum landsins, þeir Úlfar Eysteinsson á Þremur frökkum og Tómas Tómasson á Hamborgarabúllunni, hafa tekið höndum saman og mótmæla nú háum stýrivöxtum Seðlabankans með fremur óvenjulegum en friðsömum hætti. Þeir hafa tekið þá ákvörðun að skerða ekki skegg sitt fyrr en hinir margumtöluðu vextir eru komnir niður fyrir tíu prósent. Þeir standa nú í tólf stigum en peningastefnunefnd ákvað að halda þeim óbreyttum á fundi sínum hinn 13. ágúst.

Tómas segir að Úlfar hafi átt upptökin að þessu. Hann hafi verið í viðtali út af hvalkjöti og verið spurður út í það af hverju hann væri með ögn meira skegg en venjulega. „Hann sagðist bara vera að mótmæla stýrivöxtunum og ég tók hann bara á orðinu. Nú er hann búinn að safna í tvo mánuði en ég er á fimmtu viku,“ segir Tómas, sem kann bara ágætlega við skeggvöxtinn, telur að þetta fari sér bara ágætlega. „Menn hafa annað hvort líkt mér við Ernest Hemingway eða Kára Stefánsson, það er reyndar alltaf svona Hemingway-eftirhermukeppni á Key West í lok júlí á hverju ári og ég var svona að spá í að fara en fannst ég ekki alveg kominn með nógu mikið skegg þá. Kannski bara á næsta ári, það er að segja ef stýrivextirnir verða ekki komnir niður í tíu prósent fyrir þann tíma.“

Úlfari hefur hins vegar ekki verið líkt við neina jafnfræga og Hemingway og Kára. „Nei, menn hafa helst talið mig líkjast talibana frá Afganistan,“ útskýrir kokkurinn og bætir því við að hann hafi nú fjárfest í sérstökum skeggbursta enda sé skeggið orðið umtalsvert. Hann segist ætla að láta reyna á það hvort þeir félagarnir haldi það út að raka sig ekki fyrr en stýrivaxtalækkunin verði að veruleika. Enn sé engan bilbug á þeim að finna þrátt fyrir að vöxturinn sé mikill.

„Það skal hins vegar alveg viðurkennast að þetta hefur verið óþægilegt núna í sumarhitanum, sérstaklega á næturnar. Þetta hefur verið svona svipað og að sofa með tvær lopapeysur í framan.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.