Innlent

Dagur: Meirihlutinn eykur á veggjakrot

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að meirihlutinn í Reykjavík auki á veggjakrot. Fjármunir til aðgerða gegn veggjakroti verði skornir niður úr 156 milljónum króna í 61 milljón króna milli áranna 2008 og 2009. Dagur segir að slíkur niðurskurður eigi sér ekki fordæmi í rekstri borgarinnar.

Fram kemur í tilkynningu frá Degi að að Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri hafi lagt fram á fundi borgarráðs í dag svar við fyrirspurn Samfylkingarinnar um veggjakrot. Tilefni fyrirspurnarinnar hafi verið að ábendingar bárust úr flestum hverfum borgarinnar um að veggjakrot hafi aldrei verið meira.

„Í svarinu kom fram að meira en helmingi minna fé er nú varið í baráttuna gegn veggjakroti en í fyrra. Færa má rök fyrir því að framganga meirihlutans í málinu hafi aukið vandann frekar en að taka á honum. Og engar áætlanir virðast vera um það hvernig taka eigi á aukningunni," segir Dagur.

Samfylkingin lagði fram bókun um málið á fundinum í dag. Þar segir að enginn þáttur borgarrekstrarins hafi verið skorinn jafnmikið niður. Á sama tíma hafi veggjakrot aukist og hafi líklega aldrei verið meira í borgarlandinu.

„Þetta vekur spurningar um stefnu og yfirlýsingar meirihlutans um "stríð gegn veggjakroti" þar sem fjölmiðlar voru oftar en ekki kallaðir og beðnir að mynda borgarstjóra við þrif. Reynsla nágrannaþjóða bendir til þess að slíkar stríðsyfirlýsingar séu einna verst fallnar til að ná árangri og draga úr veggjakroti nema í algjörum undantekningatilfellum þegar þess sé sérstaklega gætt að orðum sé fylgt fast eftir með mannafla og fjármunum. Því miður virðast áherslur meirihlutans því helst vera fallnar til þess að auka veggjakrot fremur en að draga úr því," segir í bókun Samfylkingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×