Innlent

FME í Bretlandi vill auknar heimildir

Piccadilly circus Íslenskar eftirlitsstofnanir áttu í vandkvæðum með að elta hraðan uppgang íslensks fjármálakerfis árin fyrir hrun. Meðal eftirlitsstofnana heimsins er umræða um hvernig koma megi í veg fyrir vandamál viðlíka þeim sem Icesave-reikningar Landsbankans hafa valdið. Fréttablaðið/Valli
Piccadilly circus Íslenskar eftirlitsstofnanir áttu í vandkvæðum með að elta hraðan uppgang íslensks fjármálakerfis árin fyrir hrun. Meðal eftirlitsstofnana heimsins er umræða um hvernig koma megi í veg fyrir vandamál viðlíka þeim sem Icesave-reikningar Landsbankans hafa valdið. Fréttablaðið/Valli

„Eftirlitsstofnanir Evrópusambandsríkja ættu að hafa heimild til að takmarka starfsemi útibúa erlendra banka sem standa höllum fæti og sæta ekki nægilegu eftirliti heima fyrir,“ hefur Wall Street Journal eftir Adair Turner, stjórnarformanni Fjármálaeftirlits Breta (FSA), í gær.

Adair Turner segir betur fara á að eftirlitsstofnanir ættu rétt á að fá allar viðeigandi upplýsingar um erlenda banka sem reka útibú í landinu, þar á meðal nákvæm gögn um eigið fé, lausafjárstöðu og hvernig staðið er að áhættustýringu.

Wall Street Journal segir eftir­litsstofnanir Evrópusambandsríkja fást við þann vanda að eftir­litsstofnanir í heimaríkjum hafi engin formleg yfirráð yfir útibúum erlendra fjármálastofnana, sem þó kunni að vera að safna innlánum meðal þegna landsins.

Reglur í Evrópusambandinu og á Evrópska efnahagssvæðinu kveða á um að banki eins ríkis geti stofnað útibú í öðru ríki, en lúti eingöngu eftirliti heima­fyrir. Wall Street Journal segir að þessi „gloppa í kerfinu“ hafi komist í hámæli þegar bresk stjórnvöld þurftu að bæta eigendum innlána þar í landi tjón sem komið hafði til vegna hruns íslensku bankanna í fyrra.

Formaður breska fjármálaeftirlitsins segir að líkt og alþjóðlegu reikningsskilareglurnar MIFID gefi löndum Evrópska efnahagssvæðisins verkfæri til að stýra því hvernig útibú erlendra banka selji fjárfestingarafurðir þá ætti að vera hægt að ná meiri stjórn á annarri fjármálastarfsemi í hverju landi, svo sem söfnun innlána.

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), segir tillögu formanns breska fjármálaeftirlitsins um að gefa gistiríki víðtækar heimildir þegar eftirliti heimaríkis fjármálastofnunar­innar sé ábótavant kalla á að svarað sé spurningunni um hverjum sé ætlað að meta hæfi eftirlitsstofnana í heimaríkinu.

„Þetta er útfærsluatriði sem þarf að skilgreina betur, en auðvitað getur þetta verið vandamál og ekki bundið við Bretland,“ segir Gunnar og bendir á að sú staða gæti komið upp hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu að erlendur banki vildi hefja störf þar sem vafi kynni að leika á getu fjármálaeftirlits í heimaríki hans.

„Breytingarnar þurfa hins vegar að vera innan ramma tilskipunar Evrópusambandsins,“ áréttar hann.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×