Fótbolti

Fimmtán stiga forysta Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gerard Pique, Samuel Eto'o og Thierry Henry fagna einu marka Börsunga í dag.
Gerard Pique, Samuel Eto'o og Thierry Henry fagna einu marka Börsunga í dag. Nordic Photos / AFP

Barcelona er með fimmtán stiga forystu á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir að liðið slátraði enn einum andstæðingnum. Í dag var röðin komin að Deportivo.

Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona en Pep Guardiola, stjóri Barcelona, notaði aðeins eina skiptingu í leiknum.

Lionel Messi og Thierry Henry voru búnir að koma Börsungum í 2-0 eftir 27 mínútna leik og Samuel Eto'o bætti því þriðja við á 41. mínútu.

Thierry Henry skoraði svo fjórða markið á 82. mínútu og Eto'o því fimmta á þeirri 87. en það mark kom úr víti.

Vítið var dæmt á Aranzubia, markvörð Deportivo, fyrir að brjóta á varnarmanninum Carles Puyol sem hafði stormað upp allan völlinn og brotið sér leið í gegnum vörn Deportivo.

Aranzubia fékk að líta rauða spjaldið fyrir brotið og þar sem Deportivo var búið að nota allar þrjár skiptingar sínar í leiknum fór útileikmaðurinn Juan Rodriguez í markið. Hann kom engum vörnum við í vítinu.

Þetta var fyrsti leikurinn í nítjándu umferð deildarinnar og er Barcelona nú með fimmtán stiga forystu á bæði Real Madrid og Sevilla á toppnum. Liðið hefur unnið sextán leiki og gert aðeins tvö jafntefli síðan liðið tapaði óvænt fyrir nýliðum Numancia í fyrstu umferð tímabilsins.

Barcelona hefur skorað 59 mörk, átján mörkum meira en Atletico Madrid og 21 marki meira en Real Madrid. Liðið hefur þar að auki aðeins fengið á sig þrettán mörk á tímabilinu og er eina liðið ásamt Sevilla (16) sem hefur fengið á sig færri en 20 mörk til þessa. Real Madrid hefur fengið á sig tvöfalt fleiri mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×