Lífið

Ný ræðukeppni veldur usla

Bragi Páll ætlar að halda ræðukeppni fyrir almenning í sumar og lofar skemmtilegum viðburði. fréttablaðið/stefán
Bragi Páll ætlar að halda ræðukeppni fyrir almenning í sumar og lofar skemmtilegum viðburði. fréttablaðið/stefán

„Þetta er yndislegur heimur fyrir fólk að detta inn í og hafa áhuga á,“ segir Bragi Páll Sigurðarson sem ætlar að halda ræðukeppni fyrir almenning í sumar.

Á meðal þeirra sem hafa staðfest þátttöku sína eru rapparinn Dóri DNA og Atli Bollason úr Sprengjuhöllinni, sem eru reyndir Morfís-menn, auk þess sem vonir standa til að Gísli Marteinn Baldursson, Inga Lind Karlsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigmar Guðmundsson taki þátt.

„Mig hefur alltaf langað til að færa þetta skrýtna Morfís-fyrirkomulag til almennings af því að þetta þekkist hvergi annars staðar. Ræðukeppnir í Bandaríkjunum eru hundleiðinlegar eftirhermur af því að fólk sé að verja doktorsritgerðir og Junior Chamber á Íslandi sem Morfís er byggt á er til sjálfsstyrkingar fyrir aumingja,“ segir Bragi Páll og dregur ekkert undan.

„Það að hrokafullir drullusokkar séu að skiptast á að rífast veit ég ekki til að sé til sem keppnisform neins staðar annars staðar. Mig hefur alltaf langað til að koma Morfís í sjónvarp eða vekja athygli á því þannig að fólk geti horft á keppnirnar því það veit enginn nema þeir sem hafa farið á svona keppnir hversu mikil skemmtun þetta er.“

Bragi heldur fyrstu keppnina næstkomandi fimmtudag í Austurbæ í samvinnu við samtökin Frumkvæði. Eftir það verða tvær keppnir haldnar í viku fram að menningarnótt þar sem aðalkeppnin fer fram á Ingólfstorgi.

Stefán Pálsson, fyrrverandi keppandi og þjálfari í Morfís, er ekki jafnhrifinn af þessari nýju ræðukeppni og Bragi Páll. Hann telur að hún eigi ekkert erindi til almennings og sé best geymd innan veggja framhaldsskólanna. „Ég hafði einstaklega gaman af Morfís þegar ég var sjálfur í menntó og hafði meira að segja góðan pening upp úr því þegar ég var í háskóla að þjálfa Morfís-lið með ágætis árangri en það er afar fátt í þessu pródúkti sem á erindi út fyrir framhaldsskólana. Þetta er menntaskólaskopskyn í sinni tærustu mynd en það er nú bara eðlilegt að framhaldsskólanemum finnist heimurinn hverfast dálítið um sjálfa sig og skilja ekki af hverju fólk vill ekki bara sitja og klappa,“ segir Stefán.

„Þetta virkar í sínu umhverfi. Menn voru að streða við að sýna frá þessu og lýsa þessu í útvarpi en það var aldrei sérstaklega gott fjölmiðlaefni.“

Stefán á ekki von á því að margir gamlir ræðujaxlar fáist til að taka þátt í keppninni og sjálfur hefur hann engan áhuga á verkefninu. „Ég reikna með því að þetta brái af mönnum en hins vegar breytir það því ekki að mér þykir mjög vænt um Morfís-keppnina og ég ætla rétt að vona að hún haldi áfram að lifa og dafna. En menn eiga bara að þekkja sín takmörk og þekkja sinn stað.“freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.