Innlent

Ekki hlutverk AGS að sækja um styrki fyrir fullvalda ríki

Höskuldur Kári Schram skrifar

Hugmyndir sjálfstæðismanna að taka upp evru í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru óraunhæfar að mati sérfræðings í Evrópumálum. Hann segir ólíklegt að hægt verði að taka upp evru án beinnar aðildar að sambandinu.

Í séráliti sjálfstæðismanna við skýrslu evrópunefndarinnar sem kynnt var í gær er lagt til að íslensk stjórnvöld vinni að því í samvinnu við Alþjóðgjaldeyrisjóðinn að taka upp evru hér á landi.

Hugmyndin byggir á því að Evran verði tekin upp í samstarfi við Evrópusambandið en án beinnar aðildar.

Forstöðumaður evrópufræða við Háskólann í Reykjavík segir að þessi hugmynd sé ekki raunhæf.

„Ég held að það sé mjög hæpið að leita til alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þetta vegna þess að þetta er ekki hlutverk sjóðsins að standa í samningaviðræðum fyrir fullvalda ríki gagnvart yfirþjóðlegu valdi eins og evrópusambandið er ég held að þetta verði mjög langsótt," segir Kristján Vigfússon, forstöðumaður evrópufræða við Háskóla Reykjavíkur.

Kristján segir tæknilega sé hægt að taka upp evru án beinnar aðildar.

„En við höfum fengið skýr skilaboð bæði formlega og óformlega eftir diplómatískum leiðum - það hefur verið sagt við okkur kurteislega og líka ákveðið á bak við tjöldin að það yrði mjög í óþökk evrópuusambandsins að við tökum evruna upp einhliða þannig að ég held að það sé ekki valkostur," segir Kristján að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×