Innlent

Fyrsta degi sumars víða fagnað

Sumardagurinn fyrsti rann upp bjartur og fagur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land verður þessum fyrsta degi sumars fagnað með skrúðgöngum og öðrum hátíðahöldum. Fjölskylduhátíðir verða í helstu hverfum Reykjavíkur í dag.

Í Vesturbænum verður haldið í skrúðgöngu frá Melaskóla klukkan eitt og fjölskylduhátíð hefst við Frostaskjól klukkan hálftvö. Í Grafarvogi fer skrúðganga frá Spönginni klukkan korter í eitt og hátíðahöldin hefjast síðan við Rimaskóla klukkan eitt. Allar upplýsingar um sumarhátíðir í Reykjavík eru á vefsíðunni itr.is.

Á Akureyri verður fjölskyldustemmning við Minjasafnið frá tvö til fjögur með útileikjum, lummuáti og kakódrykkju. Að vanda verða skátarnir áberandi í hátíðarhöldum dagsins og flest skátafélög landsins taka þátt. Upplýsingar eru á skátar.is. Klukkan hálfellefu ganga skátar fylktu liði frá Arnarhóli að Hallgrímskirkju þar sem Skátamessa hefst klukkan ellefu.

Þess má geta að vetur og sumar frusu saman að þessu sinni sem veit á gott fyrir allan þann fjölda fólks sem hyggst ferðast innanlands í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×