Innlent

Þrefalt met í fjölda fanga hér á landi

Í hegningarhúsinu er nú tvísett í fimm klefum. Einnig er tvísett í klefum í fangelsunum í Kópavogi og á Akureyri, samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar.
Í hegningarhúsinu er nú tvísett í fimm klefum. Einnig er tvísett í klefum í fangelsunum í Kópavogi og á Akureyri, samkvæmt upplýsingum Fangelsismálastofnunar.

Vista hefur þurft allt að sjö gæsluvarðhaldsfanga í lögreglustöðinni við Hverfisgötu á undanförnum dögum, þar sem öll fangelsi landsins eru stappfull.

Aldrei fyrr hafa jafnmargir setið í fangelsi hér á landi og nú, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Í gær voru um 180 fangar í fangelsum landsins. Þar af voru ríflega 150 manns í afplánun, sem er met. Þá voru tæplega 30 í gæsluvarðhaldi, sem er einnig met. Í einangrun sitja nú sextán manns, sem er þriðja metið.

Öll rými eru fullnýtt og tvísett í stærri klefana, sem eru fimm í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, tvö í fangelsinu í Kópavogi og einn í fangelsinu á Akureyri. Við blasir að tvísetja þurfi einnig í einhverja klefa á Litla-Hrauni, ef fram heldur sem horfir. Einangrunarpláss í fangelsum landsins eru tíu talsins.

„Þetta er talsvert meira heldur en nokkru sinni fyrr og fjöldaþróunin mjög hröð og brött,“ segir Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. „Jákvæða hliðin er sú að lögreglan er að standa sig miklu betur heldur en áður.“

Hann segir starfsfólk í fangelsum landsins standa sig ótrúlega vel miðað við aðstæður.

Sé tekið meðaltal fjölda fanga í gæsluvarðhaldi á ári frá 1996 kemur í ljós að þeir hafa verið einn til fjórir á ári, þar til árið 2008. Þá rauk fjöldinn upp.

„Við erum að ná fleirum og dómar eru að þyngjast, sem þýðir að það þarf fleiri pláss,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir það nánast afrek hvernig Fangelsismálastofnun hafi tekist að halda uppi því þjónustustigi sem hún geri.

„En það er ekki hægt að gera það til lengdar nema að undan láti,“ segir lögreglustjóri. Hann segir vaxandi fjölda fanga, þar á meðal gæsluvarðhaldsfanga, til kominn meðal annars vegna stórra fíkniefnamála. Fíkniefnadeild LRH sé að skila miklum árangri sem menn séu mjög stoltir af.

„Þá er nálgun varðandi kynferðisbrot og alvarlegri ofbeldisbrot að breytast,“ segir Stefán. „Við erum í mjög auknum mæli að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim sem eru grunaðir í slíkum málum á grunni rannsóknarhagsmuna að sjálfsögðu, en einnig á grunni almannahagsmuna sem er stefnubreyting af okkar hálfu. Þar erum við að svara kalli almennings um að tekið sé af festu á þessum alvarlegu brotum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×