Innlent

Tugir með kannabisrækt sem aðalstarf

Kannabisefni í ræktun.
Kannabisefni í ræktun.

Lögregla hefur upprætt fjörutíu kannabisræktanir á árinu, lagt þar hald á tæplega 7.000 plöntur og handtekið um sjötíu ræktendur. Talið er að langflestir þeirra hafi haft sinn aðalstarfa af kannabisframleiðslunni.

Ræktendurnir eru flestir ungir karlmenn, ekki óreglumenn heldur fagmenn með fé á milli handanna. Tengsl eru á milli sumra þeirra sem staðið hafa fyrir aðskildum ræktunum, að sögn Karls Steinars Valssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Og við erum auðvitað að skoða hvaða hópar þar búa að baki. Það er hluti af rannsóknum okkar á þessum málum."

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að erfitt sé að leggja mat á það hversu mikil almenn neysla kannabisefna sé úti í þjóðfélaginu. Þó bendi ýmsar kannanir til þess að á bilinu fjórðungur til þriðjungur íslensku þjóðarinnar neyti kannabisefna árlega eða oftar.

Þórarinn segir neyslumynstur að breytast að því leyti að þeir séu í fyrsta sinn að fá inn til meðferðar fólk allt upp í 35 ára sem þjáist eingöngu af kannabisfíkn. Áður hafi kannabisfíklar yfirleitt verið kornungir, en eldra fólk þá búið að leiðast út í harðari efni.

Þá segir Þórarinn það mjög varlega áætlað að heildarneysla Íslendinga á kannabis á ári sé rúmt tonn, eins og fram kom í nýlegri skýrslu SÁÁ. „Þetta er algjört lágmark," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×