Innlent

Ljósmæður mótmæla breytingum í heilbrigðiskerfinu

Ljósmæður
Ljósmæður

Ljósmæðrafélag Íslands mótmælir fyrirhuguðum breytingum í heilbrigðiskerfinu sem snúa að þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra í barneignarferli. Ljóst er að enn fleiri konur en áður munu þurfa að fæða börn fjarri heimili sínu og að breytingarnar munu hafa veruleg áhrif á þá samfélagsgerð sem íslenskar fjölskyldur hafa búið við.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ljósmæðrafélagi Íslands þar segir ennfremur að breytingarnar muni sérstaklega bitna á íbúum nágrannabyggða höfuðborgarsvæðisins.

„Sá hraði og þau vinnubrögð sem heilbrigðisráðherra hefur beitt í ferlinu eru alls ekki ásættanleg. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar hefur ekki verið haft með í ráðum og er það mjög miður því að mörgu er að hyggja við breytingar á þjónustustigi í fæðingarhjálp í strjábýlu og oft á tíðum, torfæru landi .

Heilbrigðisyfirvöld beita fyrir sig efnahagsþrengingum sem ganga yfir en búast má við að sá sparnaður sem ætlað er að ná fram, muni á endanum valda auknum samfélagslegum kostnaði. Sem dæmi má nefna útgjöld fjölskyldna sem neyðast til að flytja búferlum meðan beðið er eftir barnsfæðingu, en það blasir við miklum fjölda fólks. Ef fyrirhuguð skerðing á þjónustu nær fram að ganga, mun hún hafa áhrif bæði á landsbyggðinni og á stærsta fæðingastað landsins í Reykjavík vegna aukins álags á starfsemina.



Ef verður af ætluðum niðurskurði, leggja ljósmæður áherslu á að þétta net og vernda nauðsynlega nærþjónustu heilbrigðisfagsfólks þegar nýr einstaklingur er væntanlegur í heiminn. Stéttin mun ekki sætta sig við að fólk á barneignaraldri verði af nauðsynlegri grunnþjónustu ljósmæðra sem felst í sólarhringsaðgengi foreldra að faglegri þjónustu á sviði meðgönguverndar, umönnunar sængurkvenna, ungbarna og brjóstagjafar, ekki síður en því sem snýr að fæðingunni sjálfri.



Ljósmæður munu ávallt vera til staðar fyrir konur sem þarfnast þjónustu þeirra og leggja sinn faglega metnað í að tryggja öryggi nýrra þegna og fjölskyldna þeirra. Ljósmæðrafélag Íslands vonast til að stjórnvöld beri gæfu til að boðaðar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu verði endurskoðaðar og endurunnar í samráði við notendur þjónustunnar og fagaðila sem hana veita."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×