„Sko mig langar einfaldlega að gera eitthvað fyrir Michael Jackson. Það er minningarathöfn á morgun og það var akkúrat laust pláss á Nasa á laugardaginn og ég var laus og hljómsveitin Jagúar og allir listamennirnir sem ég hringdi í," segir Páll Óskar Hjálmtýsson aðspurður um minningarviðburð sem haldinn verður á laugardaginn á Nasa.
„Þetta verður góðgerðarminningarveisla þar sem við söfnum peningum fyrir Barnaspítala Hringsins sem er mjög mikið í anda Michael Jackson. Og ég get alveg þeytt skífum í sjö klukkutíma ef því er að skipta. En ég mun sem plötusnúður fara yfir feril Michael frá barnæsku til dauðadags."

„Ákveðinn hápunktur verður þegar hljómsveitin Jagúar stígur á svið. Ég tek nokkur lög og svo mætir Yasmin ásamt dönsurum og þau taka Thriller og Smooth Criminal. Liðið á eftir að bilast. Ég get ekki beðið og hlakka mikið til," segir Páll Óskar.
„Þetta verður mexíkósk jarðarför þar sem við fögnum frekar lífi og tilveru viðkomandi í stað þess að vera í sorg og sút og eymd og ég held að Michael Jackson vilji hafa það svoleiðis og þakka fyrir allt sem hann gaf okkur."