Lífið

Peningaflíkum ekki stolið frá Ása

Peningaflíkur í tísku. Ásgrímur Már segir það einskæra tilviljun að fyrirsætur í nýrri auglýsingu klæðist flíkum sem svipar til kjóls sem hann hafi hannað.
Peningaflíkur í tísku. Ásgrímur Már segir það einskæra tilviljun að fyrirsætur í nýrri auglýsingu klæðist flíkum sem svipar til kjóls sem hann hafi hannað.

„Ég var reyndar bara að sjá auglýsinguna í dag og þetta líkist mjög kjólnum sem ég hannaði. Ég held ekki að auglýsingastofan hafi stolið hugmyndinni af mér, þetta er örugglega bara tilviljun,“ segir fatahönnuðurinn Ásgrímur Már Friðriksson um nýja auglýsingu fyrirtækisins N1, en þar má sjá fyrirsætur klæddar peningaflíkum ekki ósvipuðum peningakjól sem Ásgrímur Már hannaði fyrir jólasýningu listasafns ASÍ í fyrra.

Halldór Reykdal, viðskiptastjóri auglýsingastofunnar Fíton, sem framleiðir auglýsinguna, segir fréttirnar koma sér á óvart. „Ég hafði ekki heyrt af peningakjól Ásgríms fyrr en núna. Hugmyndin að auglýsingunni poppaði upp hjá okkur fyrir einhverju síðan og okkur fannst hún eiga vel við konseptið. Þannig að þetta var alveg ómeðvitað af okkar hálfu.“

Halldór segir að auglýsingin hafi fengið góðar viðtökur frá því að hún fór í birtingu, enda hafi mikið verið lagt í hana. „Við létum hanna raunverulegan peninga­kjól fyrir sjónvarpsauglýsinguna en flíkurnar fyrir prentauglýsinguna voru unnar á tölvu. Sú ákvörðun að myndvinna flíkurnar eftir á var tekin því það þótti of erfitt og tímafrekt að hanna margar flíkur fyrir auglýsinguna. En það er skemmtilegt frá því að segja að Ásgrímur var á meðal þeirra hönnuða sem við vildum fá til að hanna þessar flíkur.“

Aðspurður hvort þetta sé upphafið að nýrri tískubólu telur Halldór svo ekki vera. „Þetta er ekkert nýtt undir sólinni. Á netinu hefur til dæmis lengi verið hægt að kaupa svipaðar peningaflíkur og jafnvel peningaskó,“ segir Halldór að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.