Innlent

Jafnréttisnefnd vill jöfn kynjahlutföll á framboðslistum

Ísafjörður.
Ísafjörður.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga, sem var haldinn á Ísafirði síðustu helgi, skorar á stjórnmálaflokka og önnur framboð að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í efstu sætum á framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga vorið 2010. Landsfundurinn telur það jafnframt vera á ábyrgð þeirra sem bjóða fram lista við kosningar að jafna hlutdeild kynja við ákvarðanatöku í stjórnmálum.

Þá skorar Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga á öll sveitarfélög að undirrita og hrinda í framkvæmd ,,Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum".

Sáttmálinn kveður meðal annars á um aðgerðir sem sveitarfélögin geta tileinkað sér án þess að það feli í sér aukin fjárútlát. Erfið fjárhagsstaða sveitarfélaga þarf því ekki að leiða til frestunar á aðgerðum í jafnréttismálum.

Að lokum skorar Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga á alþingsmenn að skoða ítarlega hvaða áhrif samþykkt þess frumvarps um persónukjör sem nú liggur fyrir Alþingi, hefði á möguleika til að jafna stöðu kynjanna á þingi og í sveitarstjórnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×