Innlent

Segir lögreglu geta sent sér reikninginn

Verslunarmaður á Akureyri sem laug að fréttavef Morgunblaðsins í gær að ísbjörn væri við Hofsós segir um meinlausan hrekk hafa verið að ræða sem flestir hafi tekið vel. Hann segir lögreglu geta sent sér reikninginn ef einhver kostnaður hlaust af athæfinu.

Frétt um ísbjörninn ásamt ljósmyndum birtist á fréttavef Morgunblaðsins síðdegis í gær. Fjöldi fólks hafði í framhaldinu samband við lögregluna á Sauðárkróki sem ákvað að ræsa strax út mannskap. Tveir lögregluþjónar lögðu strax áleiðis á staðinn þar sem ísbjörninn átti að vera, auk þess sem skyttur voru kallaðar út.

Um hálftíma eftir að fréttin birtist kom í ljóst að um gabb hafi verið að ræða. Sigurður Guðmundsson, verslunarmaður á Akureyri, stóð á bakvið gabbið en hann var á í skemmtiferð um Skagafjörð ásamt þrjátíu Oddfellowmönnum. Sigurður segir um saklaust grín hafa verið að ræða og ef lögregla hafi orðið fyrir kostnaði vegna þess þá geti hún sent sér reikninginn.

Lögreglan sagði í gær að fólk á svæðinu hafi haft nokkrar áhyggjur eftir að fréttir af ísbirninum bárust. Sigurður segir ísbjarnafréttir hafa verið tíðar á síðasta ári og ef menn hafi ekki húmor fyrir þessu þá verði að hafa það.

Sigurður segir að félagar sínir í Oddfellow sem voru með honum í ferðinni hafi ekki vitað af hrekknum.


Tengdar fréttir

Skyttur í viðbragðsstöðu vegna ísbjarnargabbs

Hópur Akureyringa í skemmtiferð um Skagafjörð gabbaði fjölmiðla og lögreglu í dag með rangri tilkynningu um ísbjörn norðan við Hofsós. Eftir að frétt birtist um málið laust fyrir klukkan hálffjögur ræsti lögreglan á Sauðárkróki út mannskap og setti skyttur í viðbragðsstöðu. Um hálftíma síðar kom hið sanna í ljós.

Gríðarlegt ábyrgðarleysi að gabba lögregluna

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að gabb af hálfu hóps Akureyringa í skemmtiferð um Skagafjörð í dag sé litið alvarlegum augum. Um hafi verið ræða gríðarlegt ábyrgðarleysi hjá fullorðnu fólki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×