Innlent

Gríðarlegt ábyrgðarleysi að gabba lögregluna

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, er langt frá því að vera sáttur með hóp Akureyringa sem voru í skemmtiferð í Skagafirði í dag.
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, er langt frá því að vera sáttur með hóp Akureyringa sem voru í skemmtiferð í Skagafirði í dag.
Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að gabb af hálfu hóps Akureyringa í skemmtiferð um Skagafjörð í dag sé litið alvarlegum augum. Um hafi verið ræða gríðarlegt ábyrgðarleysi hjá fullorðnu fólki.

Lögregla ræsti út mannskap og setti skyttur í viðbragðsstöðu eftir að fréttir bárust af ísbirni við Hofsós í dag. Fjöldi fólks hafði í framhaldinu samband við lögregluna á Sauðárkróki sem ákvað að ræsa strax út mannskap. „Fólk sem hafði samband við okkur var óttaslegið," segir Stefán.

Um gabb reyndist að ræða.

„Þetta voru engir smákrakkar heldur fullorðnir menn. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi af þeim að fara af stað með svona," segir Stefán.

Yfirlögregluþjóninn segir að hópurinn hafi verið einhverskonar með ísbjarnarlíki. „Það segir okkur að þetta var planað hjá þeim. Þetta var ekki eitthvað sem þeim dettur í hug einn tveir og þrír, heldur hefur þetta verið áætlunin frá upphafi."

Lögreglan mun skoða málið og hafa samband við umrædda aðila og skoða frekari aðgerðir í framhaldinu, segir Stefán.


Tengdar fréttir

Skyttur í viðbragðsstöðu vegna ísbjarnargabbs

Hópur Akureyringa í skemmtiferð um Skagafjörð gabbaði fjölmiðla og lögreglu í dag með rangri tilkynningu um ísbjörn norðan við Hofsós. Eftir að frétt birtist um málið laust fyrir klukkan hálffjögur ræsti lögreglan á Sauðárkróki út mannskap og setti skyttur í viðbragðsstöðu. Um hálftíma síðar kom hið sanna í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×