Fótbolti

Ísland ekki ofar í tæp fimm ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán

Nýr styrkleikalisti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, var gefinn út í dag. Ísland færðist upp um þrjú sæti frá síðasta lista og situr nú í 77. sæti.

Ísland hefur ekki verið á ofar á listnum síðan í júlí árið 2004. Þá var liðið í frjálsu falli niður listann og féll úr 56. sæti í það 93. á aðeins hálfu ári.

Ísland færðist fyrir ofan bæði Albaníu og Trinídad & Tóbago en síðarnefnda liðið keppti á HM í Þýskalandi sumarið 2006.

Ísland mætir Liechtenstein í æfingaleik á La Manga klukkan 15.00 í dag.

Það er engin breyting á efstu ellefu liðunum á listanum og því Spánverjar enn efstir og Þjóðverjar í öðru sæti.

Hollendingar eru langefstir á listanum af þeim liðum sem eru með Íslandi í riðli í undankeppni HM 2010. Holland er í þriðja sæti á listanum, á undan heimsmeisturum Ítalíu, Brasilíu og svo Argentínu.

Skotar eru í 33. sæti og færast upp um eitt sæti, Noregur í 56. sæti og færast upp um þrjú og svo Makedónía í 57. sæti og fellur um eitt sæti.

Hástökkvarar listans er Níkaragúa sem fer upp um 50 sæti á milli lista, upp í 132. sæti. Hefur liðið aldrei verið ofar á listanum en liðið tryggði sér í fyrsta sinn þátttökurétt í álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku á dögunum en sú keppni nefnist Gold Cup.

Keppnin fer fram í Bandaríkjunum í júlí í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×