Erlent

Zimbabve taki upp eigin gjaldmiðil á ný

Robert Mugabe.
Robert Mugabe.

Robert Mugabe forseti Zimbabve segir að landið kunni að taka aftur upp eigin gjaldmiðil þar sem fólk í sveitum landsins hafi ekki aðgang að bandaríkjadollurum. Í janúar síðastliðnum afléttu stjórnvöld í Zimbabwe banni við notkun á erlendum gjaldmiðlum.

Það var gert til þess að reyna að stemma stigu við óðaverðbólgu sem var tvöhundruð og þrjátíu milljón prósent. Zimbabwe dollarinn var nánast verðlaus. Þetta leiddi til þess að verð lækkaði og vörur streymdu aftur í hillur verslana sem áður höfðu staðið auðar.

Þegar hömlunum var aflétt spáðu hagfræðingar því að þetta myndi koma illa niður á almennum borgurum landsins. Flestir þeirra fengju áfram greidd laun í Zimbabwe dollurum en neyddust til þess að greiða fyrir vörur og þjónustu í bandaríkjadollurum.

Það hefur nú komið í ljós að þetta var rétt mat. Dagblaðið Herald í Zimbabwe hefur í dag eftir Robert Mugabe að gjaldmiðlaskiptin hafi haft skelfilegar afleiðingar í sveitum landsins. Þar neyðist fólk til þess að nota búfénað sinn sem gjaldmiðil og það gangi ekki. Því sé nú verið að íhuga að taka Zimbabwe dollarann upp á nýjan leik sem eina gjaldmiðilinn.

Þetta stangast alveg á við það sem Elton Mangoma efnahagsþróunarráðherra sagði fyrr í þessari viku. Hann lofaði því á fundi með fjárfestum að fast yrði haldið við bandaríkjadalinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×