Lífið

TEKIST Á VIÐ INNRI ÓTTANN

höfundar ókyrrðar Frá vinstri: Ragnar, Friðgeir og Margrét, höfundar Ókyrrðar sem verður frumsýnt á morgun.fréttablaðið/vilhelm
höfundar ókyrrðar Frá vinstri: Ragnar, Friðgeir og Margrét, höfundar Ókyrrðar sem verður frumsýnt á morgun.fréttablaðið/vilhelm

Mikil gróska er í kringum Leikhúsbatteríið. Nýtt verk verður frumsýnt þar á morgun.

Verkið Ókyrrð verður frumsýnt í Leikhúsbatteríinu, fyrir ofan skemmtistaðinn Batterí, á morgun. Höfundar og leikendur eru Friðgeir Einarsson, Margrét Bjarnadóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Verkið er byggt á textum eftir Friðgeir og fjallar um hugarangur, ofvöxt ímyndunaraflsins og óttann sem býr innan með hverjum og einum. „Þetta byggir á persónulegri reynslu og reynslu sem kannski allir tengja við. Að láta stjórnast af hugmyndum eða ímyndunaraflinu og vera með ofvirkan hugmyndabúskap,“ segir Friðgeir. „Þetta snýst um það þegar maður lætur hreyfast af einhverju sem birtist í raunveruleikanum og tekst á við það. Við veltum fyrir okkur þessum innri ótta.“

Friðgeir skemmti sér vel við undirbúning verksins. „Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt á marga vegu. Þetta er búið að útheimta ýmsar rannsóknir innra sem ytra. Það er líka ákaflega skemmtilegt og hæfileikaríkt fólk sem ég hef fengið að vinna með.“

Friðgeir og Ragnar eru báðir útskrifaðir úr Fræði og framkvæmd frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands en Margrét er menntaður danshöfundur frá listdansskólanum ArtEZ Dansakademie í Arnhem. Friðgeir og Margrét komu bæði fram í sýningunni Húmanímal sem var frumsýnd á vordögum við góðar undirtektir. Á meðal annarra verka Ragnars eru ljóðabókin Á meðan og leikritið Blessuð sé minning næturinnar sem flutt verður í útvarpsleikhúsinu í vetur.

Ókyrrð verður einnig sýnd á leiklistarhátíðinni Diskurs í Giessen í Þýskalandi í byrjun október. Miðasala á verkið fer fram á Midi.is. Nánari upplýsingar má finna á síðunni Leikhusbatteri.is.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.