Erlent

Með derhúfu í dómsalnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Það þýðir ekki að deila við dómarann. Þetta er reyndar ekki Anne Katz heldur starfssystir hennar, Jeanine Pirro, sem einnig starfar í New York.
Það þýðir ekki að deila við dómarann. Þetta er reyndar ekki Anne Katz heldur starfssystir hennar, Jeanine Pirro, sem einnig starfar í New York.

Deila um klæðaburð lögmanns í réttarsal í New York í fyrra er orðin að dómsmáli.

Anne Katz, dómari við undirrétt í Queens í New York brást ókvæða við í mars í fyrra þegar lögmaðurinn Todd Bank, sem var að flytja mál vegna fasteignadeilu fyrir skjólstæðing sinn, birtist í réttarsalnum í gallabuxum, skyrtu og með derhúfu sem á var ritað Operation Desert Storm, sem var heitið á aðgerðum Bandaríkjahers við Persaflóa árið 1991.

Dómarinn las Bank pistilinn og sagði klæðaburð hans óvirðingu við réttinn. Dómvörður skipaði Bank að taka húfuna að minnsta kosti ofan og eftir það fékk hann að flytja mál sitt. Hann stefndi hins vegar bæði dómaranum og dómverðinum fyrir að brjóta á honum þann rétt hans að mega tjá sig að vild og klæðast að vild.

Dómur er nú fallinn í því máli og var hann Bank ekki í vil. Dómari úrskurðaði að réttarsalur væri umhverfi þar sem ákveðnar hefðir og reglur skyldu haldnar í heiðri og væri dómara heimilt að gera athugasemdir við og banna óviðeigandi klæðnað málflutningsmanna og annarra. Lögmönnum væri hins vegar frjálst að klæða sig að vild utan dómsalarins. Bank hyggst áfrýja málinu og fullyrðir að notkun hans á derhúfu dragi engan veginn úr hæfi dómarans til að dæma í málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×