Innlent

Ráðherra vill skýr fyrirheit frá hinum

„Við brúum ekki 170 milljarða bilið með framlögum frá öryrkjum og öldruðum,“ segir ráðherra. 
fréttablaðið/anton
„Við brúum ekki 170 milljarða bilið með framlögum frá öryrkjum og öldruðum,“ segir ráðherra. fréttablaðið/anton

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra telur „óhjákvæmilegt að gefin verði skýr fyrirheit um lækkun hæstu launa, stórhert aðhald í yfirstjórn ríkisins, umtalsverðan sparnað í utanríkisþjónustu og verulega aukinn aga í öllum rekstrarútgjöldum ríkisins, til þess að unnt sé að taka ákvörðun um hver hlutur öryrkja og aldraðra eigi að vera í þeirri þjóðarsátt sem fram undan er“.

Hann vill ekki staðfesta að til standi að skerða bætur til þessara hópa. „Nei, en fólk kallar auðvitað eftir því að sjá hver er hin raunverulega samstaða um aðhaldsaðgerðir. Við viljum sjá merki þess að allir séu að taka á eftir getu, áður en við leitum eftir framlögum frá þeim sem lakast standa, til að bjarga efnahagslífinu.“

Mjög mikilvægt sé að fá heildarmyndina, 170 milljarða gatið, áður en teknar verði endanlegar ákvarðanir um niðurskurð þessa árs. Hann hafi ekki enn séð hvernig það skuli gert.

„Við erum ekki komin nógu langt í vinnunni til að loka árinu 2009. Við getum ekki tilkynnt um niðurskurð fyrr en við getum myndað samfélagslega samstöðu um hann. En eitt er víst: við brúum ekki 170 milljarða bilið með framlögum frá öryrkjum og öldruðum.“ - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×