Erlent

Fimmtíu og eitt lík fundið úr Air France vélinni

Óli Tynes skrifar
Meðal þess sem fundist hefur er stél vélarinnar.
Meðal þess sem fundist hefur er stél vélarinnar.

Tvöhundruð tuttugu og átta manns fórust með Air France flugi 447. Meðal þeirra var einn Íslendingur. Búið er að bera kennsl á ellefu lík, þar á meðal af flugstjóra vélarinnar og einum flugþjóni.

Enn er allt á huldu um ástæðuna fyrir slysinu. Þó er vitað að hún lenti í mikilli ókyrrð og að sjálfvirkir sendar um borð í vélinni sendu tilkynningar um stórfelldar bilanir í rafkerfi hennar.

Brakið úr vélinni var dreift yfir margra kílómetra svæði sem bendir til þess að hún hafi sundrast á flugi, hver svo sem ástæðan var.

Brasiliski flotinn hefur nú hætt leit að líkum. Talsmaður hans segir að ekkert lík hafi nú fundist í níu daga og líkurnar séu sáralitlar á því að fleiri finnist. Talsvert brak úr vélinni fannst einnig.

Svarti kassinn svokallaði sem geymir upplýsingar um flugferlið er hinsvegar ófundinn.

Frönsk herskip eru enn á staðnum við að reyna að nema hljóðmerki frá honum en tíminn er óðum að styttast.

Kassinn sendir frá sér hljóðmerki í þrjátíu daga eftir slys. Vélin fórst hinn fyrsta þessa mánaðar og því ekki margir dagar til stefnu.

Bandaríski flotinn hefur sent fjarstýrðan kaftbát á vettvang sem er sérhannaður til að finna flugrita.

Famleiðandi kafbátsins sagði í viðtali við CNN fréttastofuna að fram til þessa hafi allir flugritar fundist sem leitað hefur að með bátnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×