Lífið

Tónleikar í 21 ár

Siu Chui Li og Emilía Rós Sigfúsdóttir hefja sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.
Siu Chui Li og Emilía Rós Sigfúsdóttir hefja sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.

Sumartónleikar Listasafns Sigur­jóns Ólafssonar hefjast í dag í tuttugasta og fyrsta sinn. Alls eru níu tónleikar á dagskrá í sumar, en fyrstar stíga á stokk Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari og Siu Chui Li píanóleikari. Dagskrá kvöldsins samanstendur af Sónötu í e-moll BWV 1034 eftir Bach, Rising from the Ashes eftir Tarek Younis, Sónatínu eftir Pierre Sancan og Inngang og tilbrigði um Trockne Blumen eftir Franz Schubert. Tónleikarnir hefjast klukkan hálf níu og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

Safn Sigurjóns var opnað almenningi 1988 og hafa tónleikarnir verið hluti af starfsemi hússins upp frá því. Listasafnið, sem er á Laugarnestanga, hýsir safn abstrakt-, raunsæis- og portrettverka Sigurjóns auk nýrra sýninga eftir aðra listamenn.

Tónleikar verða alla þriðjudaga í sumar fram til fyrsta september. Á efnisskrá eru Tuttugu tillit til Jesúbarnsins í flutningi Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara og þýskir og franskir ljóðasöngvar í flutningi Claudiu Kunz sópransöngkonu og Ulrich Eisenlohr píanóleikara. Tónskáldið og píanóleikarinn Snorri Sigfús Birgis­son frumflytur svo verk eftir sjálfan sig og Ólaf Óskar Axelsson og Gunnar Kvaran frumflytur verk eftir Mist Þorkelsdóttur svo fátt eitt sé nefnt. Heildardagskrá tónleikanna má nálgast á lso.is. - kbs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.