Lífið

Einstæðar mæður skrifa leikrit fyrir Borgarleikhúsið

Hópurinn með kennara sínum og leiðbeinanda, Auði Jónsdóttur. Þær frumsýna á fimmtudaginn tvö ný leikverk sem fæddust á námskeiði hjá Auði og verða alvöru atvinnuleikarar í helstu hlutverkum. Fréttablaðið/GVA
Hópurinn með kennara sínum og leiðbeinanda, Auði Jónsdóttur. Þær frumsýna á fimmtudaginn tvö ný leikverk sem fæddust á námskeiði hjá Auði og verða alvöru atvinnuleikarar í helstu hlutverkum. Fréttablaðið/GVA

„Þetta er svona Full Monty, nema bara fyrir leikhúsið og það er engin sem fækkar fötum,“ segir Auður Jónsdóttir, rithöfundur og leikritaskáld. Hún var leiðbeinandi tveggja hópa í Kvennasmiðju námsflokka Reykjavíkur í skapandi skrifum en nemendurnir voru átján einstæðar mæður. Útgefendur skyldu hafa augun hjá sér og fylgjast vel með hópnum því einn þekktasti rithöfundur síðari tíma, J.K. Rowling, var einmitt einstæð móðir þegar hún skrifaði sögurnar um Harry Potter.

Upphaflega hugmyndin var sú að kenna þeim sitthvað í skapandi skrifum en að sögn Auðar var hugmyndaflugið og orkan svo mikil að til urðu tvö leikrit sem sett verða upp á stóra sviði Borgarleikhússins á fimmtudaginn klukkan ellefu. Leikarar úr Borgarleikhúsinu hafa verið fengnir í helstu hlutverkin og vinum, vandamönnum og velunnurum hefur verið boðið. Auður lætur þess þó getið að allir sem vilji sjá þessar frumraunir kvennanna megi endilega láta sjá sig.

Auður viðurkennir að þetta hafi ekki verið í upphaflegu námsskránni; að til yrðu fullsköpuð leikrit sem hægt væri að sýna í leikhúsi. Námskeiðið átti bara að snúast um skapandi skrif og hvernig best væri að bera sig að við þau. „En þegar þær voru samankomnar leyndist svo mikill kraftur þarna og hann braust út af fullu afli og eftir tvo tíma var komin upp sú hugmynd að setja leikverkin upp, vera með sýningu á stóra sviði Borgarleikhússins og fá alvöru leikara í hlutverkin,“ útskýrir Auður og játar það fúslega að afraksturinn hafi farið fram úr sínum björtustu vonum. „Ég er alveg rosalega upprifin, ég bjóst aldrei við þessu.“

Og skáldið segir samtölin vera svo flott og frumleg að eflaust myndu mörg ungskáldin skera af sér aðra höndina fyrir texta á borð við þann sem lifnar við í Borgarleikhúsinu. „En það hefði svo sem ekkert átt að koma á óvart, hvað þeim finnst lítið mál að skrifa leikrti, þær eru náttúrulega vanar mikilli vinnu og að þurfa að finna eitthvað sniðugt plott á hverjum degi í sínu lífi.“

-freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.