Enski boltinn

Guðjón: Verkefninu er ekki lokið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón varar menn við því að slaka of mikið á.
Guðjón varar menn við því að slaka of mikið á. Nordic Photos/Getty Images

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe, segir í samtali við heimasíðu félagsins að hann sé ekki farinn að kæla kampavínið þrátt fyrir fínt gengi félagsins undir hans stjórn. Verkefninu sé langt frá því að vera lokið.

Guðjón hefur stýrt Crewe í átján leikjum. Átta þeirra hafa unnist og fjórir endað með jafntefli. Þessi góði árangur hefur lyft Crewe upp úr fallsæti þegar aðeins sjö leikir eru eftir af deildarkeppninni.

„Við erum búnir með erfiðustu leikina á tímabilinu. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt því það hafa verið margir leikir á stuttum tíma. Þess utan hafa verið ferðalög í marga leikina," sagði Guðjón.

„Þessir leikir hafa verið áskorun fyrir leikmennina og sumir þeirra verða örugglega andlega þreyttir. Þeir eru samt að halda þetta vel út og ég veir þeir bíða eftir vikufríi. Það frí verður kærkomið."

Guðjón leggur mikla áherslu á það að leikmenn slaki hvergi á og klári verkefnið sem er að halda Crewe upp í ensku C-deildinni.

„Það er enn mikil vinna eftir. Við verðum að klára þá vinnu og sjá til þess að Crewe haldi sér í deildinni. Ég er þess fullviss að við náum í nægilega mörg stig. Ég hef nefnilega tröllatrú á leikmönnunum," sagði Guðjón Þórðarson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×