Innlent

Ísland þriðja heims land í tannlækningum

Fjörtíu börn eru mætt niður á Læknasetrið til þess að þiggja ókeypis tannlæknaþjónustu.
Fjörtíu börn eru mætt niður á Læknasetrið til þess að þiggja ókeypis tannlæknaþjónustu.

„Við stefnum í það að verða þriðja heims land í tannlækningum," segir formaður tannlæknafélags Íslands, Ingibjörg S. Benediktsdóttir, en félagið hefur boðið upp á ókeypis tannlækningar fyrir börn í Læknasetrinu við Vatnsmýrarveg, nálægt BSÍ.

Ástæðan fyrir því að Ingibjörg er svo óspar á lýsingarorðin er sú að í morgun mættu fjörtíu börn á biðstofu félagsins, þar af voru níu börn mætt áður þau opnuðu.

„Það er allt fullt hjá okkur," segir hún og bendir á að þetta sé varhugaverð þróun.

„Þetta kom okkur mjög mikið á óvart," segir Ingibjörg en Tannlæknafélagi Íslands bauð fyrst upp á ókeypis tannviðgerðir fyrir tveimur vikum síðan. Ástæðan var sú að tannlæknakostnaður er orðinn gríðarlega hár fyrir börn sem fá lítinn stuðning frá ríkinu, ólíkt því sem gengur og gerist á Norðurlöndum.

Hér á landi er ástandið orðið svo slæmt að mati Ingibjargar að efnaminni foreldrar geta ekki borgað tannlæknaviðgerðir fyrir börnin sín; afleiðingarnar eru sláandi.

„Íslensk börn eru með tvöfalt fleiri skemmdir en á Norðurlöndunum," segir Ingibjörg um þá döpru þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum og áratug. Hún segir að tannheilsa barnanna sé á ábyrgð þjóðarinnar en undanfarin ár hefur stuðningur hins opinbera staðið algjörlega í stað og ekki fylgt neinum verðlagsbreytingum eða öðrum þróunum í samfélaginu þrátt fyrir langt góðærisskeið.

Því til rökstuðnings segir Ingibjörg að styrkur til tannviðgerða hefur staðið í stað í rúm tíu ár.

„Það er ótrúlegt að við þurfum að standa fyrir svona þjónustu enda erum við rík þrátt fyrir þá tímabundnu erfiðleika sem þjóðfélagið gengur í gegnum núna," segir Ingibjörg en ekki er fyrirséð að hægt sé að líta á öll börnin í dag.

Hitt er ljóst, að það er gríðarleg eftirspurn eftir tannviðgerðum fyrir börn, sem Ingibjörgu þykir sorglegt.

Tannlæknafélagið mun bjóða upp á samskonar þjónustu tvisvar í maí en svo verður lokað yfir sumarið. Þess má geta að allir tannlæknar sem leggja hönd á plóg eru í sjálfboðavinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×