Innlent

Kvikmyndastjarna klófesti þjóf

Andri Ólafsson skrifar

Ungur leiklistarnemi sýndi hetjutakta þegar hann klófesti þjóf í miðbænum og fékk hann til að skila ránsfengnum.

Snorri Engilbertsson, sá hinn sami og fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Astrópía, var að koma heim til sín á fimmtudagskvöldið þegar hann kom auga á þjóf sem brotist hafði inni í bíl og var á leiðinni burt með lítinn peningakassa fullan af seðlum.

Snorri hljóp þjófinn uppi og náði honum þegar hann datt inn í kjarr skammt frá. Þá var hins vegar kominn upp pattstaða. Þjófurinn vildi ekki sleppa peningunum en Snorri vildi ekki sleppa þjófinum.

Úr varð að þeir sættust á að Snorri myndi rölta með honum upp á Laugaveg, í næsta hraðbanka, þar sem hann myndi greiða honum tvö þúsund krónur fyrir að fá kassann.

Snilldarráð hjá Snorra sem tötli upp á Laugaveg með Þjófnum sem enn var með peningakassann undir hendinni. En þegar í hraðbankann var komið flæktust málin enn frekar.

Snorri fékk synjun, enda fátækur námsmaður.

Þegar hér er komið við sögu hafði taflið snúist við. Innbrotsþjófurinn var farinn að hafa samúð með leiklistanemanum Snorra sem engann pening átti inni á kortinu sínu. Þjófurinn féllst því á að skila ránsfengnum og þeir félagar kvöddust með handabandi.

Snorri skilaði svo kassanum inn til lögreglu daginn eftir sem kom honum í réttar hendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×