Innlent

Ræða bókhald frambjóðenda

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti borgarstjórnar. Mynd/Völundur Jónsson
Forsætisnefnd borgarstjórnar mun á allra næstu dögum ræða tillögu Ólafs F. Magnússonar sem felur í sér að frambjóðendur í prófkjörum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar opni bókhald sitt, að sögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar forseta borgarstjórnar. Hann segir að nefndin komi hugsanlega næst saman á föstudaginn.

Borgarráð vísaði fyrir helgi tillögu Ólafs til forsætisnefndar. Fram kemur í greinargerð að Ólafur lagði tillöguna fram eftir að upplýst var um fjárframlög Landsbankans, FL-Group og Byggingarfélagsins Eyktar til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

„Þetta er auðvitað mál sem við viljum fara yfir en við höfum einnig verið að fara yfir siðareglur borgarfulltrúa. Annars vil ég ekki vera að tjá mig sérstaklega um tillöguna," segir Vilhjálmur og bætir við að hún sé ekki ný af nálinni.

„Ef fjárstyrkir til einstakra frambjóðenda tengjast einhverskonar fyrirgreiðslu er auðvitað um alvarlegt mál að ræða," segir Vilhjálmur.

Þá segir Vilhjálmur að frambjóðendur og borgarfulltrúar eigi að fara eftir þeim siðareglum sem almennt gilda um störf kjörinna fulltrúa. „Aðalatriðið er menn hafi mjög skýrar reglur um þessi mál og að stjórnmálamenn fylgi þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×