Innlent

Ísland gerir ráð fyrir fleiri sjó- og mengunarslysum í norðurhöfum

Ísland hefur tekið við formennskunni í Norrænu ráðherraráðinu og leggur til þar að komið verði á fót gagnabanka um siglingarleiðir í norðurhöfum. Íslenskir ráðmenn gera ráð fyrir að fleiri sjó- og mengunarslys verði á þessum slóðum í kjölfar þess að heimskautsísinn hopar stöðugt og fleiri leiðir opnast fyrir skipasiglingar.

Í umfjöllun Berlingske Tidende um málið segir að loftslagsbreytingarnar á norðurslóðum geri það nauðsynlegt að skapa betri yfirsýn yfir svæðið. Þegar ísinn byrjar fyrir alvöru að hopa á næstu árum munu skipasiglingar aukast gífurlega og þar með hættan á sjóslysum og mengunarslysum.

Íslendingarnir vilja koma upp gagnabanka með sjókortum og áhættumati og vona að með því megi koma á sameiginlegum vörnum gegn slysum á hafsvæðinu milli Noregs, Færeyja, Grænlands og Íslands.

Rætt er við Björgvin G. Sigurðsson samstarfsráðherra Norðurlandanna sem segir að það sé í þágu allra Norðurlandanna að koma á samræmdum aðgerðum til að vernda fyrrgreint hafsvæði. Einkum með tilliti til þess að skipaaukningin muni að stórum hluta verða olíuflutningar og flutningar með annan hættulegan varning.

Ætlunin er að áhættumatið liggi fyrir á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×