Innlent

Innbrotsþjófur hljóp í flasið á húsráðanda

Sjö innbrot í bíla voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en tölvum var stolið úr þremur þeirra. Tölvu var sömuleiðis stolið úr verslun í Kópavogi og í miðborginni gekk innbrotsþjófur í flasið á húsráðanda. Þjófurinn lagði á flótta en var handtekinn skömmu síðar.

Unglingsstúlka var staðin að hnupli í verslunarmiðstöð og kona um fertugt var sömuleiðis gripin glóðvolg í áfengisverslun en þar hafði hún tekið áfengisflösku ófrjálsri hendi. Konan játaði brot sitt og viðurkenndi einnig að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hún stundaði þennan ljóta leik.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þá segir einnig frá því að Tveir ökumenn hafi verið teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld.

Fyrst var karl um fertugt tekinn fyrir þessar sakir í Garðabæ en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Í bíl hans fundust jafnframt ætluð fíkniefni. Um klukkutíma síðar hafði lögreglan afskipti af ökumanni á Laugavegi og var hann sömuleiðis undir áhrifum áfengis. Um var að ræða karl á sextugsaldri en viðkomandi var einnig með hníf í fórum sínum. Hnífurinn var haldlagður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×