Innlent

Hættulegar lóðir hreinsaðar

unnið að hreinsun Starfsmenn Reykjavíkurborgar unnu að því að hreinsa burt byggingarefni og rusl af svæðinu við Hestavað í gær. Vonast er til að mesta ruslinu verði komið í burtu í dag. fréttablaðið/valli
unnið að hreinsun Starfsmenn Reykjavíkurborgar unnu að því að hreinsa burt byggingarefni og rusl af svæðinu við Hestavað í gær. Vonast er til að mesta ruslinu verði komið í burtu í dag. fréttablaðið/valli

Starfsmenn Reykjavíkurborgar unnu í gær að því að hreinsa upp rusl á lóð borgarinnar við Hestavað í Norðlingaholti. Fréttablaðið greindi frá því í gær að börn hefðu slasað sig á lóðinni, meðal annars lá drengur á spítala með blóðeitrun eftir að hafa stigið þar á nagla.

„Þetta er mikið gleðiefni,“ segir Katrín Garðarsdóttir, íbúi í Kambavaði. Hún segir íbúana alla ánægða með þróun mála. Að sögn Jóhanns S. D. Christiansen, verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg, gekk hreinsunin vel í gær og gert er ráð fyrir því að farið verði langleiðina með að klára hreinsunina á svæðinu í dag. Þá verður farið á fleiri svipaðar lóðir, bæði í Norðlingaholti og Úlfarsárdal.

„Við erum líka að vinna í byggingalóðunum, erum að reyna að minnka hættuástandið eftir bestu getu,“ segir Jóhann, en byggingalóðirnar sem um ræðir eru ekki í eigu borgarinnar. Vegna slysahættu og rusls ætlar borgin hins vegar að senda erindi til lóðar-hafa þar sem þeim er gert að ganga vel frá eftir sig og skilja við lóðir svo ekki sé hætta á slysum. Ef ekki verður brugðist við því mun borgin hreinsa lóðirnar á kostnað eigenda.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×