Innlent

Minnkar tekjur um 3,5 milljarða

fiskvinnsla Aukning kvóta um 10 þúsund tonn hefði skapað 270 störf og aukið útflutningstekjur um 7 milljarða frá því sem nú verður, að sögn skipstjóra.	fréttablaðið/gva
fiskvinnsla Aukning kvóta um 10 þúsund tonn hefði skapað 270 störf og aukið útflutningstekjur um 7 milljarða frá því sem nú verður, að sögn skipstjóra. fréttablaðið/gva

Kristján Gíslason, skipstjóri á Mars RE, segir óþolandi að sjávarútvegsráðherra taki ekki mark á neinum öðrum en Hafrannsóknastofnun þegar kemur að ákvörðun um fiskveiðikvóta.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra ákvað á dögunum að minnka þorskkvótann um rúm 12 þúsund tonn. Telur Kristján að auka hefði mátt kvótann í staðinn um 10 þúsund tonn, hið minnsta.

„Þetta er þyngra en tárum tekur að þessi maður skuli voga sér að hunsa reynslu okkar skipstjóra því að við erum vitnin á staðnum. Það er miklu meira af þorski á ferðinni en Hafró viðurkennir enda er stofnstærðarmat þeirra gallað," segir Kristján.

Með minnkun þorskkvótans tapar íslenska ríkið um 3,5 milljörðum í útflutningstekjur sem þjóðinni veitti ekki af í þessu árferði, að mati Kristjáns.

„Svo er þetta vinna fyrir 270 manns ef þetta er unnið í landi. Með því að auka kvótann í staðinn um 10 þúsund tonn áhyggjulaust hefði það aukið útflutningstekjur um 7 milljarða frá því sem nú verður," segir Kristján.

Meiri fiskur er í sjónum en hefur verið í háa herrans tíð, að mati Kristjáns, því nú sé hellingur af þorski kominn frá Grænlandi. - vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×