Innlent

Fóðurverksmiðja rís á Grundartanga

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra við skóflustungu á Grundartanga.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra við skóflustungu á Grundartanga.

Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að nýrri fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga. Þær fóðurverksmiðjur sem hafa þjónað Íslendingum fram að þessu eru komnar til ára sinna og því metnaðarmál að svara kröfum nýrra tíma um aukna nákvæmni, gæði og öflugri sóttvarnir segir í tilkynningu Líflands. Ljóst er að ný tækni gjörbyltir allri aðstöðu til fóðurframleiðslu og er grunnur því að Lífland geti af öryggi þjónað íslenskum landbúnaði í framtíðinni.

Með nýrri tækni stóreykst öll nákvæmni við íblöndum vítamína, stein- og snefilefna sem eykur öryggi í framleiðslu og þar með gæði vörunnar. Orkunýting við framleiðsluna verður betri auk betri nýtingar og vinnslu á öllum hráefnum. Mesta breytingin er þó fullkominn aðskilnaður á hráefnum og hitameðhöndluðu fóðri sem stórbætir sóttvarnir gegn sjúkdómsvaldandi örverum.

Nýja verksmiðjan gerir Íslendingum kleift að framleiða kjarnfóður með svipuðum tæknibúnaði og best gerist í Evrópu. Tækjakostur verður af fullkomnustu gerð og miðast við heilbrigðiskröfur ESB. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður 30 þús tonn á einni vakt.

Áætlað er að verksmiðjan rísi á hálfu ári en verksmiðjuhúsið spannar samanlagt tólfhundruð fermetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×