Lífið

Haffi Haff tryllir lýðinn á fegurðarsamkeppni Möltu

Ætlar sér að sigra heiminn og það gerir hann ekki með því að vera alltaf heima á Íslandi.
Ætlar sér að sigra heiminn og það gerir hann ekki með því að vera alltaf heima á Íslandi.

Haffi Haff treður upp á mikilli fegurðarsamkeppni á Möltu og kemur fram á MTV hátíð þar. Helsta áhyggjuefnið er að stílistinn mikli á engin föt til að koma fram í.

„Ég ætla að reyna að gera allt vitlaust," segir stílistinn og tónlistarmaðurinn Haffi Haff. Það stendur mikið til hjá Haffa en 4. júlí næstkomandi treður hann upp á mikilli fegurðarsamkeppni sem haldin er á Möltu - Miss World Jersey sem er eins konar forkeppni Miss World en bresku eyjarnar eru með sérstaka keppni í tengslum við það. Þá verður á sama tíma mikið MTV partý á Möltu og er ætlunin að Haffi komi þar fram einnig.

„Það er ógeðslega gaman að fara út og gera eitthvað. Ég hef verið á fullu við að skemmta hér heima, eins mikið og ég get, en það er gaman að fara út. Maður sigrar ekki heiminn með því að vera alltaf á sama stað. Og það er tilgangurinn: Að sigra heiminn," segir Haffi Haff hress í bragði. Hann ætlar að flytja lagið „Control" sem hann sendi frá sér fyrir viku. Einnig Wiggle Wiggle Song sem íslendingar þekkja vel frá því hann söng það í forkeppni fyrir Eurovision-keppnina fyrir tveimur árum. Og ekki síst lagið Give me sexy sem er mjög vinsælt á Möltu.

Ástæðan fyrir því að Haffi er þekkt stærð á Möltu er meðal annars þannig til komin að textahöfundur þess lags, Gerard James Borg, er einmitt búsettur á Möltu. Gerard er virtur í bransanum og hefur í nokkur skipti átt framlag Möltu í Eurovision-söngkeppnina auk þess að hafa starfað með stórstjörnum á borð við Missy Eliot, Alicia Keys, Sacha og Carola.

„Hann er ótrúlega góður gæi en við höfum verið að vinna með honum að undanförnu. Ég ætla að reyna að fá Írisi Hólm sem syngur með mér í Control út. Annars veit ég ekki hverjir verða með í för. En þetta er stórkostlegt tækifæri og ég ætla að reyna að gera þetta eins vel og hægt er. Og vera fulltrúi Íslands. Sýna að hér á Íslandi er verið að gera góða hluti. Gera lög sem eiga erindi á alþjóðavettvang. Það er mikilvægast," segir Haffi og slær nú fram nokkru sem hlýtur að koma mörgum á óvart.

„Annars verður þetta í góðu lagi. Einu áhyggjur mínar eru þær í hverju ég á að vera. Ég á ekkert til að vera í." Haffi Haff er einhver þekktasti stílisti landsins en hann segir að það sé svo að þó hann sé að stílisera nánast alla þá mæti hann sjálfur afgangi. „Ég á alltaf í vandræðum með það. Þetta er mesta stressið."

Ekki er hægt að skilja við Haffa án þess að inna hann eftir ástamálunum en fjölmiðlar fjölluðu um ástalíf hans fyrir um hálfu ári. Haffi hlær spurður hvernig þau mál standi nú. „Það er enginn í mínu lífi núna. Það ræður enginn við mig. Það er allt í lagi. En það þarf alvöru mann til að geta höndlað mig. Og þeir eru ekki á hverju strái. Ég er einn og það er fínt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.