Innlent

Segja Borgarahreyfinguna hafa óbreytta afstöðu til ESB

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Liðsmenn Borgarahreyfingarinnar segjast hafa óbreytta stefnu í ESB málum.
Liðsmenn Borgarahreyfingarinnar segjast hafa óbreytta stefnu í ESB málum.
Borgarahreyfingin er enn þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu nema að undangengnum aðildarviðræðum, líkt og stefna hreyfingarinnar var í aðdraganda kosninga. Þetta kemur fram í tilkynningu sem framkvæmdastjóri hreyfingarinnar sendi fjölmiðlum í morgun.

„Niðurstaða þeirra, að lokinni víðtækri kynningu, yrði síðan borin undir þjóðaratkvæði. Var það niðurstaða hreyfingarinnar eftir miklar umræður, að þessi leið væri í anda þeirra lýðræðisumbóta sem að hreyfingin vill standa fyrir. Stjórn Borgarahreyfingarinnar vill árétta að þetta er enn skýr stefna hreyfingarinnar. Lögum samkvæmt ber þingmönnum hreyfingarinnar hins vegar að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu," segir í tilkynningunni.

Mikil umræða hefur verið um afstöðu Borgarahreyfingarinnar til þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, sagði um helgina að hún ætlaði sér að styðja tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún hafi hins vegar ekkert sagt um það hvernig hún greiðir atkvæði um tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Haft var eftir Þór Saari, þingmanni Borgarahreyfingarinnar, í Morgunblaðinu í dag að þingmenn hreyfingarinnar hefðu gert forsætisráðherra og fjármálaráðherra það ljóst að þingmenn Borgarahreyfingarinnar vildu slá Iceasve málið út af borðinu á Alþingi ellegar myndu þau greiða atkvæði með tvöfaldri atkvæðagreiðslu um aðild að ESB.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×