Innlent

Lágt olíuverð hindrar nýja orkugjafa

Dropinn hefur oft verið dýrari en nú.
Dropinn hefur oft verið dýrari en nú. Mynd/Vísir.
Lægra olíuverð minnkar verulega hvatann til að finna nýja orkugjafa og erfiðar efnahagsaðstæður seinka tilkomu nýrra orkugjafa um einhver ár. Þetta kemur fram í nýrri eldsneytisspá sem Orkuspárnefnd hefur gefið út til næstu áratuga.

95 prósent af olíunotkun landsmanna er vegna samgangna og fiskveiða, það er við notum olíu og bensín að mestu á bíla, flugvélar og skip, og svo mun verða áfram á næstu árum. Spáð er að olíunotkun hér innanlands muni aðeins minnka lítillega fram til ársins 2020 en það verði ekki fyrr en undir miðja þessa öld sem nýir orkugjafar fari að auka verulega hlutdeild sína og notkun jarðefnaeldsneytis minnki þá enn frekar.

Hin alþjóðlega efnahagskreppa gerir hins vegar allar spár erfiðar og eldsneytishópur orkuspárnefndar sá sig knúinn til að skrifa sérstaka athugasemd vegna nýjustu sviptinga í heiminum. Þær gera það að verkum að eftirspurn eftir olíu á næstu árum verður minni en búist var við og olíuverð því lægra en spáin miðaði við. Lægra olíuverð minnki verulega hvatann til að finna nýja orkugjafa og kostnaður við nýja innviði við erfiðar efnahagsaðstæður seinki tilkomu nýrra orkugjafa um einhver ár. Hversu mikil skammtímaáhrifin af samdrætti hérlendis verða, mun ráðast nú á næstu mánuðum, segir í skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×