Lífið

Hópflúrun og þaktónleikar

Linda og Össur hjá Reykjavík Ink skipuleggja öðruvísi menningarveislu á menningarnótt. Fréttablaðið/Arnþór
Linda og Össur hjá Reykjavík Ink skipuleggja öðruvísi menningarveislu á menningarnótt. Fréttablaðið/Arnþór

„Við vorum með tónleika hérna í fyrra með Sign og Nögl og fleirum og það var alveg stappað af fólki og rosalega gaman. Þannig að við ákváðum að gera þetta bara stærra og betra núna," segir Linda Mjöll Þorsteinsdóttir hjá Reykjavík Ink við Frakkastíg um dagskrá menningarnætur hjá þeim.

„Við ætlum að loka neðri hlutanum á Frakkastígnum og vera með tónleika. Við erum sem sagt að smíða svið uppi á þakinu hjá okkur og þar verðum við með sex hljómsveitir. Það eru Þrusk, Langi Seli og Skuggarnir, Bróðir Svartúlfs; svo er hljómsveit sem heitir 59'ers, hún er að koma fram í fyrsta sinn. Þetta er rockabilly hljómsveit með hinum goðsagnakennda Smutty Smith. Einnig koma fram Cliff Clavin og Noise," Þá verður Harley Davidson-klúbburinn með mótorhjólasýningu. „Það verða sérstök custom made mótorhjól, þessi sérsmíðuðu flottu, og þeim verður raðað hérna upp Frakkastíginn."

Stofan verður að sjálfsögðu opin. „Við ætlum líka að vera með fjöldaflúr hérna; við munum fá einhverja úr Harley Davidson-klúbbnum hérna yfir daginn. Þau ætla að fá sér H og D í tilefni dagsins. Ég veit ekki alveg hversu margir, kannski 20 til 50." Er fjöldaflúr algengt? „Nei, þetta er í fyrsta sinn."

Dagskráin stendur yfir á milli tvö og sjö, en tónleikarnir hefjast á þakinu klukkan þrjú. Þyrsti menn í frekari skemmtun um kvöldið eiga þau Linda og maður hennar, Össur Hafþórsson, einnig Sódómu Reykjavík og Bar 11, en á Sódómu spila Entombed, Sororicide, In Memoriam og Gone Postal. Shogun og gestir skemmta á Ellefunni. „Það er nóg að gera."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.